Rytmísk tónlistarbraut – jazzlína (stúdent)

Athugið að haustið 2022 tók í gildi ný brautaruppbygging fyrir rytmíska stúdentsbraut, jazzlínu og miðast taflan hér fyrir neðan við það.

Þeir nemendur sem hófu nám fyrir haustið 2022 geta nálgast eldri útgáfuna með því að smella hér.

Lýsing

Með námi á rytmískri tónlistarbraut til stúdentsprófs er lagður grunnur að háskólanámi á sviði tónlistar og er brautin áhugaverður valkostur fyrir nemendur sem stefna að því að hafa tónlist að atvinnu. Þar eiga nemendur þess kost að ljúka stúdentsprófi með tónlist sem aðalnámsgrein. Nemendur velja sér aðalnámsgrein sem getur verið hljóðfæraleikur, söngur, tónsmíðar eða fræðigreinar tónlistar. Brautakjarni tónlistargreina miðast við þær greinar sem þarf að ljúka til að útskrifast með fullgilt framhaldspróf í rytmískri tónlist samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskólanna. Á brautinni er lögð áhersla á rytmíska tónlist en valeiningar á brautinni gefa nemendum möguleika á að móta námið að eigin þörfum og áhugasviðum og sækja valnámskeið á ólíkum sviðum tónlistar. Þannig geta nemendur undirbúið sig fyrir ýmiss konar framhaldsnám á sviði tónlistar. Almennar bóknámsgreinar aðrar en þær sem snúa að tónlist eru kenndar við Menntaskólann í Hamrahlíð, en jafnframt er nemendum gefinn kostur á að fá almennar bóknámsgreinar metnar úr öðrum framhaldsskólum. Lögð er sérstök áhersla á samleik og samvinnu nemenda og þar fá þeir þjálfun í fjölbreyttu samspili í stærri og minni hópum. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur fái haldgóða kennslu í bóklegum greinum tónlistar. Náminu er ætlað að veita góðan undirbúning fyrir háskólanám í tónlist og störf tónlistarmanna.

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði fyrir nám við brautina er að umsækjandi hafi lokið grunnskólaprófi með fullnægjandi árangri. Nemandi þarf að hafa lokið grunnskóla með B eða hærra í kjarnagreinum (eða áfanga á fyrsta hæfniþrepi) til þess að geta hafið nám á öðru hæfniþrepi. Jafnframt fer fram inntökupróf þar sem lagt er mat á hæfni umsækjanda í hljóðfæraleik/söng og tónfræðigreinum út frá faglegum forsendum. Miðað er við að nemendur hafi lokið miðprófi í hljóðfæraleik, grunnprófi í söng eða sambærilegu tónlistarnámi.

Skipulag

Námið er skipulagt sem þriggja til fjögurra ára nám til stúdentsprófs með tónlist sem aðalnámsgrein. Nám á brautinni er að lágmarki 200 einingar, þar sem nemendur tileinka sér hæfni á þriðja þrepi. Miðað er við að nemandi í fullu námi ljúki 200 einingum á þremur árum. Á brautinni er lögð megináhersla á rytmíska tónlist en nemendur geta sótt námskeið á ólíkum tónlistarsviðum. Valnámskeið á brautinni gefa nemendum færi á að aðlaga námið að sínum þörfum og áhugasviðum, til að mynda að búa sig undir ýmiss konar framhaldsnám á sviði tónlistar. Nemendur velja sér aðalnámsgrein, svo sem hljóðfæraleik, söng eða bóklegar greinar á sviði tónlistar.

Námsmat

Lögð er áhersla á að beita fjölbreyttum aðferðum við námsmat og að meta vinnu nemenda jafnt og þétt yfir námstímann. Námsmat getur verið fólgið í símati eða lokaprófi eða hvoru tveggja. Við námsmat skal tekið mið af þekkingar-, hæfni- og leikniviðmiðum. Kveðið er á um námsmat hvers áfanga fyrir sig í áfangalýsingum. Nemendur taka hljóðfæra-/söngpróf á haust- og vorönn og fá einkunn fyrir iðni og umsögn kennara á hverri önn.

Reglur um námsframvindu

Lágmarkseiningafjöldi á brautinni er 200 einingar og miðað er við að nemandi í fullu námi ljúki 33 einingum á önn og taki því að meðaltali 66 einingar á ári. Í áfangalýsingum koma fram skilyrði um undanfara. Lágmarkseinkunn áfanga er 5 en í einstaka áföngum er heimilt að gera kröfu um hærri lágmarkseinkunn til þess að geta tekið framhaldsáfanga.

Hæfniviðmið

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að

  • Takast á við háskólanám á sviði tónlistar.
  • Eiga góða möguleika á að standast inntökupróf við tónlistarháskóla hér heima og erlendis.
  • Halda opinbera tónleika.
  • Koma fram á tónleikum bæði í hljómsveit og í einleikshlutverki.
  • Nýta sér menntun sína og þekkingu á fræðigreinum tónlistar.
  • Miðla tónlist á sjálfstæðan og skapandi hátt.
  • Sýna frumkvæði og persónulega túlkun við tónlistarflutning.
  • Fjalla um tónlist á ábyrgan, gagnrýnan og skapandi hátt.
  • Vera ábyrgur og virkur einstaklingur í lýðræðissamfélagi.
  • Taka þátt í menningarlífi hér heima og erlendis og gera sér grein fyrir samfélagslegu hlutverki listamannsins.
  • Greina eigin verk og annarra af þekkingu, víðsýni og umburðarlyndi.

Einingafjöldi

Lágmarkseiningafjöldi til að útskrifast af brautinni er 200.

Kjarni – skylduáfangar brautarinnar:

Námsgrein Þrep 1 Þrep 2 Þrep 3 Þrep 4 Einingar
Enska Enska 1
Enska 2
Enska 3  15
Hljóðfæraleikur/
söngur
Hljóðfæraleikur/söngur 1.1
Hljóðfæraleikur/söngur 1.2
Hljóðfæraleikur/söngur 2.1
Hljóðfæraleikur/söngur 2.2
Hljóðfæraleikur/söngur 3.1
Hljóðfæraleikur/söngur 3.2
 48
Hreyfing Hreyfing 1.1
Hreyfing 1.2
Hreyfing 2.1
Hreyfing 2.2
 4
Íslenska Íslenska 1
Íslenska 2
Íslenska 3
Íslenska 4
 20
Jazzsaga Jazzsaga 1.1
Jazzsaga 1.2
 6
Lífsleikni Lífsleikni 1.1
Lífsleikni 1.2
 6
Rokksaga Rokksaga 1.1
Rokksaga 1.2
 6
Rytmísk hljómfræði Rytmísk hljómfræði 1.1 Rytmísk hljómfræði 1.2 Rytmísk hljómfræði 2.1
Rytmísk hljómfræði 2.2
 16
Rytmísk tónheyrn Rytmísk tónheyrn 1.1 Rytmísk tónheyrn 1.2 Rytmísk tónheyrn 2.1
Rytmísk tónheyrn 2.2
 16
Stúdentsprófstónleikar Útskriftartónleikar  10
Stærðfræði Grunnáfangi
Stærðfræði 2
 10
Fjöldi eininga  30 75 53  157

Bundið pakkaval

Fjöldi námskeiðapakka sem nemendur velja: 1 af 2

Hljóðfæri

Námsgrein Þrep 1 Þrep 2 Þrep 3 Þrep 4 Einingar
Samspil Samspil 1.1
Samspil 1.2
Samspil 2.1
Samspil 2.2
 12
Fjöldi eininga  6 6  12

Söngur

Námsgrein Þrep 1 Þrep 2 Þrep 3 Þrep 4 Einingar
Söngvinnubúðir Söngvinnubúðir 1.1
Söngvinnubúðir 1.2
 6
Uppfærsla Uppfærsla 1.1
Uppfærsla 1.2
 6
Fjöldi eininga  4 6  12

Frjálst val

Nemendur taka að lágmarki 31 valeiningar. Þar af mega 20 valeiningar vera innan almenns bóknáms.  Nemendur geta valið áfanga bæði í rytmískri og klassískri tónlist. Við hvern áfanga er tiltekið hvaða undanfara nemendur þurfa að hafa lokið til að velja áfangann.

Í frjálsu vali þurfa nemendur að gæta að reglum í aðalnámskrá um hlutfall náms á hæfniþrep. Nemendur fá aðstoð náms- og starfsráðgjafa við val á áföngum svo nemendur geti aðlagað námið og sérhæfingu þess sem best að sínum áhuga og framtíðaráformum.

Gott er að hafa í huga að inntökukröfur í háskóla eru mismunandi milli námsleiða og mikilvægt er að kynna sér inntökukröfur vel ef hugur ykkar stefnir í ákveðna átt í tengslum við framhaldsnám. Hægt er að kynna sér inntökuskilyrðin á vefsíðum háskólanna.