Áfangalýsingar

Fræðigreinar í tónlist

Boðið er upp á fjölbreyttar bóklegar tónlistargreinar allan námstímann með tilliti til aldurs og þroska nemenda. Kenndar eru hefðbundnar tónfræðagreinar en einnig eru í boði aðrir áfangar sem miða að því að dýpka þekkingu nemenda á ólíkum sviðum tónlistar og undirbúa þau á hagnýtan hátt undir störf tónlistarmanna. Skólinn býður upp á fjölbreytt nám í bóklegum greinum á framhaldsstigi og nemendur annarra skóla geta væntanlega sótt eitthvað af fræðigreinakennslu þangað, því ekki hafa allir skólar burði til þess að halda úti kennslu í öllum þeim bóklegu fögum sem ætlast er til að nemendur ljúki fyrir framhaldspróf í tónlist. Skólinn býður jafnframt upp á fjarnám í öllum þeim bóklegu tónlistargreinum sem þarf til þess að ljúka fullgildu framhaldsprófi í tónlist. Tölvu- og upptökuver er við skólann sem nýtist við upptökur, kennslu í hljóðvinnslu, tónfræðakennslu, tónsköpun og kennslu í nýjum miðlum.

Fjarnám

Skólinn býður upp á fjarnám í tónfræðagreinum fyrir nemendur sem stunda nám í tónlistarskólum á landsbyggðinni til þess að gera þeim kleift að ljúka fullgildu framhaldsprófi. Þá stefnir skólinn á aukið samstarf við tónlistarskóla á landsbyggðinni m.a. í formi kennara- og nemendaskipta.

Almennar bóknámsgreinar

Kennsla almennra bóknámsgreina  annarra en tónlistargreina til stúdentsprófs fer fram við Menntaskólann við Hamrahlíð og liggur fyrir samstarfssamningur milli skólanna um kennslu þeirra. Í námsbrautarlýsingum er útfært nánar hvaða almennu námsgreinar nemendur þurfa að taka til þess að útskrifast með stúdentspróf. Einnig eiga nemendur þess kost að fá almennar bóknámsgreinar metnar úr öðrum framhaldsskólum, sé um sambærileg námskeið að ræða.