Sóley er tónskáld og tónlistarkona úr Hafnarfirði. Árið 2010 útskrifaðist Sóley úr Listaháskóla Íslands sem tónskáld og hefur hún til þessa gefið út fjölmargar plötur og verk. Áður hafði hún lagt stund á klassískt píanó við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og rytmískt píanó við Tónlistarskóla FÍH.

Fjórða og nýjasta breiðskífa Sóleyjar Mother Melancholia kom út árið 2021.
Platan er sveipuð tilraunakenndri feminískri ádeilu á feðraveldið og hlaut verðlaun sem plata ársins í opnum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum en hlaut þrjár aðrar tilnefningar fyrir tónverk ársins, plötukover ársins og tónlistarmyndband ársins. Einnig var Mother Melancholia valin plata ársins hjá tónlistargagnrýnanda Morgunblaðsins og hjá Reykjavík Grapevine music awards. Hún var svo valin á Kraumslistann yfir bestu plötur ársins 2021. Platan hlaut tilnefningu til Nordic music prize en Sóley var einnig tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna (Nordic music council prize) fyrir sama verk. 

 

Sóley hefur áður hlotið tilnefningar til Grímunnar og Íslensku tónlistarverðlaunanna sem bjartasta vonin, lagahöfundur ársins og plötu ársins fyrir plötu sína We Sink. Hún hlaut Kraumsverðlaunin árið 2012. Árið 2020 hlotnaðist henni sá heiður að fá hvatningarverðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns.


Sóley hefur verið iðin við tónleikaferðalög um heiminn síðan árið 2007 en hefur ávallt sinnt tónlistarkennslu meðfram ferli sínum. Árið 2008 hóf hún störf við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hún kenndi á rytmískt píanó og tónfræði. Frá árinu 2016 hefur hún svo kennt tónsmíðar við Listaháskóla Íslands.


Sóley er formaður KÍTÓN (Félag kvenna í tónlist) og situr í stjórn FTT, félag texta og tónhöfunda. 

Netfang:
Símanúmer:

Til baka í kennarayfirlit