Sigurgeir hóf nám á selló hjá Gunnari Kvaran við Tónlistarskóla Garðabæjar árið 1984, þá átta ára gamall. Hann lauk síðar einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1995 og hélt til frekara náms hjá David Wells og Laurence Lesser við New England Conservatory of Music í Boston. Þaðan lauk hann bæði Bachelor of Music og Master of Music gráðum. Síðan lá leiðin til Þýskalands þar sem Sigurgeir lærði hjá Prof. Johannes Goritzki við Robert Schumann Tónlistarháskólann í Düsseldorf þar sem hann útskrifaðist með Konzertexamen árið 2002.

Sigurgeir gegnir nú tímabundið stöðu leiðara sellódeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands en hann hefur leikið sem aðstoðarleiðari deildarinnar frá 2003.

Frá árinu 2013 hefur hann verið listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar sem haldin er síðustu helgina í júlí hvert ár. Einnig er hann einn af stofnendum Alþjóðlegu Tónlistarakademíunnar í Hörpu.

Sigurgeir hefur komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Bochumer Symphoniker, Kammersveit Reykjavíkur og Blásarasveit Reykjavíkur í einleikskonsertum eftir Schumann, Beethoven (triple), Ibert, Gubaidulina og báða konserta Haydns.

Sigurgeir hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi og komið reglulega fram á tónleikum Listahátíðar í Reykjavík, Kammermúsikklúbbsins, Salarins í Kópavogi, Tríós Reykjavíkur og Reykjavik Midsummer Music og jafnframt leikið víða erlendis. Vorið 2014 lék Sigurgeir heildarverk L.v. Beethovens fyrir selló og píanó á þrennum tónleikum á Listahátíð Reykjavíkur með Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara, en fyrir þessa tónleika voru þau tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2014.

Sigurgeir er deildarstjóri strengjadeildar Tónlistarskólans í Reykjavík.

Netfang: sigurgeir@tono.is
Símanúmer: 562 6045 / 863 9104

Til baka í kennarayfirlit