Jósef er fæddur og uppalinn í hinni amerísku borg englanna, Los Angeles, þar sem hann lærði hornleik og hljómsveitarstjórn við Pomona College. Hann stundaði framhaldsnám í Þýskalandi hjá hinum heimsþekkta einleikara Hermann Baumann og vann á námsárunum til verðlauna í alþjóðlegu keppninni Vor í Prag.

Jósef kom til Íslands árið 1981. Hann gegndi stöðu fyrsta hornleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands í yfir þrjá áratugi.

Hann er stofnmeðlimur Blásarakvintetts Reykjavíkur og hefur bæði með Sinfóníuhljómsveitinni og Blásarakvintettinum gefið út fjölda hljóðritana og komið fram víða um heim. Hann spilar einnig reglulega með Kammersveit Reykjavíkur og Íslensku óperunni.

Sem listrænn stjórnandi Hornleikarafélags Íslands tók hann mikilvægan þátt í skipulagningu þings norrænna hornleikara sem var haldið á Íslandi árið 2008. Jósef hefur flutt og tekið upp mörg einleiksverk með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kemur oft fram á þingum alþjóða hornfélagsins “International Horn Society” þar sem hann gegnir nú embætti varaforseta.

Jósef Ognibene hefur kennt við Tónlistarskóla í Reykjavík í meira en aldarfjórðung og tekið þar þátt í að koma á fót nokkrum kynslóðum íslenskra málmblásara. Undanfarin ár hefur hann stjórnað Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík einu sinni á ári og einnig stjórnað málmblásarasveit skólans.

Netfang: ognibene@tono.is
Símanúmer: 565 7062 / 663 2062

Til baka í kennarayfirlit