Curver Thoroddsen býr og starfar í Reykjavík. Hann er með meistaragráðu í myndlist en lagði snemma stund á upptökutækni, klassíska raftónlist og allar hugsanlegar gerðir af tónlistarsögu jafnhliða myndlistarnámi sínu.

Undanfarna áratugi hefur Curver verið áberandi á tónlistarsviðinu, bæði undir eigin nafni og með hljómsveitinni Ghostigital. Í tónlist sinni hefur hann leitast við að kanna mismunandi og fjölbreyttar vinnsluaðferðir en oftar en ekki hverfist útkoman um óhefðbundna hljóðheima og hugmyndafræðilega nálgun við tónlistarsköpun.

Curver er virtur upptökustjóri og hefur getið sér gott orð með vinnu sinni með fjölda jaðar- og neðanjarðarhljómsveita eins og Mínus, Mammút, Countess Malaise, Singapore Sling og Stilluppsteypu. Í myndlist sinni hefur hann unnið í ýmsum miðlum eins og hljóðlist, vídeólist, innsetningar, gjörninga og vennslalist.

Curver útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá LHÍ árið 2000, meistaragráðu frá SVA í New York árið 2009 og listkennsluréttindi frá LHÍ árið 2016. Hann var umsjónarmaður Biophilia menntaverkefnisins fyrir Björk Guðmundsdóttur 2011-2016 og ferðaðist um allan heim til að kenna krökkum eftir hugmyndafræði verkefnisins, þjálfa leiðbeinendur og þróa það áfram.

Hann kennir einnig hljóðtækni á kvikmyndasviði Borgarholtsskóla, tónlistarsköpun hjá Stúdíó Sýrlandi/Tækniskólanum, tilraunakennda kvikmyndagerð og vídeólist hjá Kvikmyndaskóla Íslands auk þess sem að hann hefur nokkrum sinnum kennt Hljóðlistaáfanga hjá Listaháskóla Íslands. Hjá MÍT kennir Curver Raftónlist og Hljóðtækni.

Netfang: curver@gmail.com
Símanúmer: 899 0260

Til baka í kennarayfirlit