Nú fær framtíðarvon íslenskrar tónlistar tækifæri til að láta ljós sitt skína á stóra sviðinu.

Hinn nýstofnaði Menntaskóli í tónlist sameinar alla krafta sína í Háskólabíói þann 6. apríl þegar hlaðið verður í sannkallaða söngleikjasprengju með ódauðlegum atriðum úr ástsælustu söngleikjum Broadway. Alls verða 80 manns á sviðinu!

Nú þegar Tónlistarskóli FÍH og Tónlistarskóli Reykjavíkur hafa runnið saman í eitt mætast söngur og hljóðfæraleikur úr djasstónlist og klassík. Nemendur MÍT sáu þar færi á að nýta þessa fjölbreyttu hæfileika og standa í samstarfi við stjórn skólans að þessari stórbrotnu uppsetningu. Þar dugaði ekkert minna en sprengja af Broadway-stærðargráðu!

Stóreflis leikhópur blæs nýju lífi í perlur Broadway og leiðir áhorfendur í gegnum söngleikjasöguna með söng, dansi og leik.

Verðlaunaði danshöfundurinn Chantelle Carey hefur sett saman dansatriði af sinni einskæru snilld. Þjóðargersemin og söngleikjakempan Örn Árnason hefur deilt reynslu sinni með leikurum.

Fjölbreytt samsetning stefna og stíla úr tónlistarsögunni kallar líka á gríðarstóra hljómsveit til að glíma við rokk, djass, klassík og allt þar á milli.

Orkestruna leiðir Jóhann G. Jóhannsson og rytmísku hljómsveitina Ingvar Alfreðsson. Þórunn Guðmundsdóttir og Pálmi Sigurhjartarson annast raddsetningar.

Enginn má missa af stóru söngleikjasprengjunni!

Miðasala á: https://tix.is/is/event/7727/songleikjasprengja-mit/