Úlfar Ingi hóf formlegt tónfræðinám við Tónlistarskóla Skagafjarðar 1981. Hann innritaðist síðan í djassdeild Tónlistarskóla FÍH og nam þar kontrabassaleik og djassfræði um tveggja ára skeið. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík á síðari hluta 9. áratugarins og lauk burtfararprófi  í tónfræðum og tónsmíðum úr tónfræðadeild 1990, þar sem kennarar hans voru m.a. Karólína Eiríksdóttir og Þorkell Sigurbjörnsson.

Úlfar stundaði framhaldsnám í tónsmíðum og tónfræðum við University of California, San Diego á tímabilinu 1992-99 og lauk doktorsprófi 2000. Aðalkennarar  hans voru Brian Ferneyhough, Rand Steiger og Bertram Turetzky. Titill lokaverkefnis var „Developing Methodological Strategies for the Documentation and Treatment of Multi-Strucural Elements in Modern Musical Composition as relating to Dual Closure.”

Úlfar hefur starfað sem tónskáld, tónlistarkennari, kontrabassaleikari og stjórnandi á Íslandi, Kaliforníu og Mexico. Hann hefur samið hljómsveitar-, kammer-, kór- og einleiksverk sem flutt hafa verið víða um heim af margvíslegum flytjendum t.a.m. Sinfóníuhljómsveit Íslands,  Caput Ensemble, Kammersveit Reykjavíkur, Hljómeyki, slagverkssnillingnum Steven Schick, Turetzky Duo, ítalska kórnum Libera Cantoria Pisani, Christians Consort í Noregi og Formalist String Quartet. Hann hefur átt samstarf við Íslenska Dansflokkinn og ECA artist network.  Hann hefur komið fram sem flytjandi og  átt verk  á tónlistarhátíðum s.s. Ung Nordisk Musik Festival; International University Music Festival og  Darmstad Revisited Festival í  San Diego; Listahátíð í Reykjavik, og ýmsum viðburðum er tengdust samstarfinu „Menningarborgir Evrópu”, Norrænum Tónlistardögum, Myrkum Músíkdögum ásamt fjölda annarra tónleika á Íslandi og erlendis.

Úlfar starfar nú sem tónskáld og kennari í tónsmíðum og tónfræðum við Listaháskóla Íslands, Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla FÍH.

Vefsíða: www.punktprojectedition.com

Netfang: ulfar@lhi.is
Símanúmer: 552 6202 / 8677931

Til baka í kennarayfirlit