
Herdís Ágústa Linnet lauk bæði bakkalár- og meistaraprófi í klassískum píanóleik og kammertónlist frá Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi. Aðalkennarar hennar við skólann voru Anders Kilström og Stefan Bojsten. Þá stundaði hún viðbótarnám við Tónlistarháskólann í Malmö hjá Francisca Skoogh og Tuija Hakkila.
Herdís hóf píanónám við Tónlistarskóla Kópavogs og lærði þar hjá Brynhildi Ásgeirsdóttur. Framhalds- og burtfararprófi lauk hún frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og Menntaskóla í tónlist, þar sem kennari hennar var Svana Víkingsdóttir.
Tónlistarnám Herdísar hófst í Skólahljómsveit Kópavogs þar sem hún lærði á trompet. Kennari hennar var Snorri Sigurðarson og hljómsveitarstjóri var Össur Geirsson. Herdís hélt áfram námi á trompet hjá Guðmundi Hafsteinssyni við Tónlistarskóla Kópavogs og hjá Eiríki Erni Pálssyni, við Tónlistarskólann í Reykjavík og Menntaskóla í Tónlist. Herdís lék með ýmsum hópum á trompet og meðal annars Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Sem einleikari hefur Herdís komið fram með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins þar sem hún lék píanókonsert Edvards Grieg. Þá hefur hún einnig verið virk í flutningi kammertónlistar. Þá hlaut hún styrk úr Minningarsjóði um Birgi Einarsson apótekara, árið 2023, og Den Nordiska Första S:t Johannislogens Jubelfond, árið 2024.
Símanúmer:
Til baka í kennarayfirlit