Ástríður Alda Sigurðardóttir lauk einleikaraprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Önnu Þorgrímsdóttur og síðar Artist Diploma gráðu frá Indiana University School of Music, þar sem hún nam hjá Reiko Neriki. Hún hefur jafnframt sótt fjölda námskeiða og tíma í píanóleik og kammertónlist hjá virtum listamönnum á borð við Geörgy Sebök, Ludwig Hoffmann, Janos Starker, Jürgen Schröder og Olaf Dressler.

Ástríður hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi um árabil, bæði sem einleikari og í fjölbreyttu samstarfi við marga af fremstu hljóðfæraleikurum og söngvurum landsins. Sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands lék hún meðal annars píanókonsert Jórunnar Viðar árið 2015 í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi og áður í öðrum píanókonserti Chopins á afmælisári hans 2010. Af sama tilefni gaf hún út einleiksplötuna Chopin, sem inniheldur fjórar ballöður tónskáldsins og sónötuna í b-moll.

Ástríður var einnig píanóleikari Elektra Ensemble, sem starfaði í yfir áratug og hlaut margvíslegar viðurkenningar, þar á meðal Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins 2020. Hópurinn lagði áherslu á flutning bæði klassískra meistaraverka og frumflutninga nýrra íslenskra tónverka. Þá lék hún jafnframt með tangósveitinni Fimm í tangó, sem sérhæfði sig í flutningi finnskra og íslenskra tangóa. Hljóðritanir með leik Ástríðar má auk þess finna á fjölda hljómplatna og í upptökum fyrir útvarp.

Samhliða tónlistinni hefur Ástríður á síðari árum sinnt námi í heilsutengdum greinum. Hún lauk BSc gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík og er bæði viðurkenndur markþjálfi og jógakennari. Hún hefur jafnframt tekið sérhæfð námskeið í skapandi markþjálfun og performance-sálfræði, sem hafa styrkt sýn hennar á mikilvægi andlegrar og líkamlegrar vellíðanar í tónlistarnámi og flutningi.

Netfang:
Símanúmer:

Til baka í kennarayfirlit