Áfangastjóri MÍT

Þóra Björt Sveinsdóttir var á dögunum ráðin í starf áfangastjóra MÍT. Þóra Björt er menntaður náms- og starfsráðgjafi ásamt því að vera með MA- og BA próf í uppeldis- og menntunarfræðum þar sem hún lagði áherslu á fræðslu- og stjórnun menntastofnana. Hún hefur meðal annars starfað við verkefnastjórn og ráðgjöf hjá stígamótum og sem náms og starfsráðgjafi. Hún hefur jafnfram starfað við stór Evrópuverkefni sem snúa að heilsueflandi vinnustöðum hjá Vinnueftirliti ríkisins og sem kennari. Við bjóðum Þóru Björt hjartanlega velkomin til starfa hjá MÍT og hlökkum til samstarfsins.

Deildarstjóri rytmískrar deildar MÍT

Andrés Þór Gunnlaugsson hefur verið ráðinn í starf deildarstjóra rytmískrar deildar MÍT. Andrés Þór lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla FÍH 1999, BA gráðu í jazzgítarleik og kennslufræðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi 2004 og MA gráðu frá sama skóla árið 2006.  Andrés mun jafnframt ljúka diplómanámi í kennslufræði frá LHÍ nú í vetur. Andrés hóf að starfa sem hljóðfæraleikari 1994 á dansleikjum en síðari ár hefur hann verið virkur í íslensku tónlistarlífi með eigin jazzhljómsveitir auk þess að starfa sem hljóðfæraleikari í hljóðverum, tónleikauppfærslum og í leiksýningum.  Andrés hefur gefið út fjölmarga hljómdiska í eigin nafni sem og í samstarfi við aðra. Andrés hefur margoft verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna og var útnefndur Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2014. Andrés hefur starfað sem kennari við MÍT frá stofnun skólans og starfar jafnframt sem kennari við Listaháskóla Íslands. Við óskum Andrési hjartanlega til hamingju með nýja starfið og hlökkum til samstarfsins.