Freyja Gunnlaugsdóttir hefur verið ráðin skólameistari Menntaskóla í tónlist frá 1. janúar 2021.

Freyja lauk Magister prófi í klarínettuleik frá Hochschule fur Musik Hanns Eisler, Berlin og seinna Konzertexamen, æðstu prófgráðu sem veitt er frá þýskum tónlistarháskólum. Freyja hefur einnig lokið meistaraprófi í stjórnun og stefnumótun frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og viðbótardiplóma í kennslufræði frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Freyja hefur gegnt stöðu aðstoðarskólameistara Menntaskóla í tónlist frá stofnun hans og starfi aðstoðarskólastjóra Tónlistarskólans í Reykjavík frá 2013. Hun hefur umfangsmikla reynslu af kennslu og skólaþróun á sviði tónlistarkennslu.

Freyja starfaði um árabil sem hljóðfæraleikari, lengst af í Berlín þar sem hún tók virkan þátt í fjölbreyttu og framsæknu tónlistarlífi borgarinnar. Hún hefur leikið með ýmsum hljómsveitum og kammerhópum, svo sem Berliner Symphoniker, Staatsorchester Frankfurt, Komische Oper (Berlin) og Theatro de la Opera (Madrid). Einnig lék hún á klarínettu við leikhúsin Deutsches Theater og Volksbühne í Berlín. Freyja hefur frumflutt fjöldann allan af einleiksverkum fyrir klarínettu og gefið út fimm geisladiska.

Hún hefur jafnframt gegnt fjölmörgum trúnaðar- og stjórnarstörfum fyrir hönd tónlistarmanna og var valin Bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2010.

Freyja var valin úr hópi níu umsækjenda um starfið og hafði Gunnhildur Arnardóttir hjá CeoHuxun umsjón með ráðningarferlinu.

Stjórn skólans býður Freyju innilega velkomna og óskar henni velfarnaðar í nýju starfi. Framundan eru margar áskoranir sem við hlökkum til að takast á við með Freyju við stjórnvölinn.

f.h. stjórnar MÍT

Anna Guðný Guðmundsdóttir, formaður