Umgjörð og skipulag
Skólinn er sjálfseignarstofnun með heimili og varnarþing í Reykjavík. Skólinn er stofnaður af Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónlistarskóla FÍH. Skólinn starfar eftir aðalnámsskrá framhaldsskóla sem gefin er út af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og lögum um framhaldsskóla (nr. 92/2008) og tekur jafnframt mið af aðalnámsskrá tónlistarskóla. Tekjur skólans byggjast á opinberum framlögum frá ríkissjóði. Jafnframt innheimtir skólinn skólagjöld af nemendum skólans sem standa undir kostnaði við daglegan rekstur hans, öðrum en kennslukostnaði. Með málefni skólans fer stjórn hans eða skólanefnd sem skipuð er eins og kveðið er á um í lögum um framhaldsskóla (nr. 92/2008). Skólanefnd ræður skólastjóra og framkvæmdastjóra skólans.
Skólastjóri annast stjórn skólans í umboði skólanefndar og ber ábyrgð gagnvart henni. Skólastjóri ber ábyrgð á að starfstilhögun skólans sé í samræmi við hlutverk hans, markmið og gæðakröfur, m.a. hvað varðar námskrá og kennslufyrirkomulag. Hann framfylgir stefnu skólans og kemur fram fyrir hönd skólans gagnvart starfsmönnum, nemendum og öðrum utanaðkomandi aðilum. Hann skipuleggur, annast starfsemi skólans og hefur yfirumsjón með skólastarfi. Enn fremur ræður hann kennara og annað starfsfólk til starfa að fengnu samþykki skólanefndar. Framkvæmdastjóri sér um rekstur og fjármál skólans í umboði skólanefndar, hann gerir jafnframt drög að fjárhagsáætlun skólans og leggur fyrir skólanefnd.