Þórunn hóf tónlistarnám sitt í Tónlistarskóla Kópavogs. 1984 lauk hún blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og ári síðar lauk hún burtfararprófi í söng og einleikaraprófi á flautu frá sama skóla. Aðalkennarar hennar voru Elísabet Erlingsdóttir og Bernharður Wilkinson. Eftir það stundaði hún framhaldsnám við Indiana University í Bloomington, Indiana í Bandaríkjunum og lauk þaðan Bachelor-, Masters- og Doktorsprófi í söng og söngfræðum. Hún hefur sótt námskeið og masterklassa hér heima og erlendis, m.a. hjá Dalton Baldwin, Elly Ameling og Lorraine Nubar.
Eftir að hún kom heim frá námi stundaði hún margvísleg störf tengd tónlist m.a. sem útgáfustjóri hjá Íslenskri tónverkamiðstöð. Hún hefur komið víða fram sem einsöngvari, m.a. í Töfraflautunni eftir Mozart í Íslensku óperunni, í Orfeo eftir Monteverdi undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar, með Kammersveit Reykjavíkur og með ýmsum kórum. Einnig hefur hún haldið fjölda einsöngstónleika og gert hljóðritanir fyrir Ríkisútvarpið. Hún hefur sungið inn á hljómdiska, m.a. safndisk með lögum Sigfúsar Halldórssonar, jóladisk með Kammerkór Hafnarfjarðar og sólódisk með lögum Jóns Leifs og Karls O. Runólfssonar. Þá gaf Þórunn út jóladisk með eigin lögum og textum.
Þórunn hefur skrifað fjölda leikrita og söngleikja sem hafa m.a. verið sett upp af áhugaleikfélaginu Hugleik. Vorið 2014 var uppfærslan á söngleik hennar „Stund milli stríða“ valin áhugaverðasta áhugaleikhússýningin af Þjóðleikhúsinu. Undanfarin ár hefur Þórunn skrifað óperur (libretto og tónlist) sem hafa verið fluttar af nemendum Tónlistarskólans í Reykjavík, flestar undir hennar leikstjórn. Þar má nefna: Mærþöll, Gilitrutt, Hlina, Sæmund fróða, Hliðarspor og óperettuna Tónlistarskólann.
Þórunn hefur kennt við ýmsa tónlistarskóla, s.s. Tónlistarskólann í Kópavogi, Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hún starfaði sem söngkennari og deildarstjóri söngdeildar við Tónlistarskólann í Reykjavík um árabil og varð aðstoðarskólastjóri við skólann haustið 2009. Hún starfaði sem skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík veturinn 2013-14 í fjarveru Kjartans Óskarssonar. Þórunn er aðstoðarskólastjóri í Menntaskóla í tónlist og kennir jafnframt klassískan söng.
Símanúmer: 863 4783
Til baka í kennarayfirlit