YFIRLÝSING FRÁ MÍT

Samstaða kvenna og reynslusögur af kynferðislegri áreitni og öðru kynbundnu ofbeldi hafa hrist upp í íslensku samfélagi á undanförnum vikum.  Nú hafa konur í tónlist og í menntastofnunum stigið fram og sagt frá eigin reynslu af áreitni, þöggun og lítilsvirðingu í störfum sínum.

Mikilvægt er að skólasamfélagið hlusti á þessar raddir og bregðist við af fullri alvöru. Því vil ég taka skýrt fram að stjórnendur Menntaskóla í tónlist munu standa með þolendum og taka málstað þeirra alvarlega.  Kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti og annað ofbeldi, hvort heldur er af hendi karla eða kvenna, verður ekki undir neinum kringumstæðum liðið innan vébanda skólans og sannist slík hegðun mun það leiða til áminningar og brottreksturs þeirra sem af sér brjóta.

Mikilvægt er að starfsfólk og nemendur Menntaskóla í tónlist geti treyst því að vera örugg á vettvangi skólans, að þau séu metin að verðleikum og að rödd þeirra skipti máli.  Þegar horft er til framtíðar er mikilvægt að hugsa um hvaða veganesti næstu kynslóðir fá þegar kemur að  samskiptum kynjanna.  Skólinn mun því skoða hvernig megi tryggja að þekking á jafnréttismálum verði sjálfsagður hluti af náminu. Skólinn leggur ríka áherslu á gagnkvæma virðingu í samskiptum hvort sem um er að ræða samskipti nemenda eða kennara.

Stjórn skólans vinnur nú að jafnréttisáætlun og verklagsreglum sem snúa að viðbrögðum við kynferðislegri áreitni og öðru kynbundnu ofbeldi.

Trúnaðarmaður nemenda er Freyja Gunnlaugsdóttir, sími 8616107.

Trúnaðarmaður kennara verður kosinn strax á næsta kennarafundi í upphafi næstu annar.

Ég hvet ykkur eindregið til að leita til trúnaðarmanna ef eitthvað brennur á ykkur. Samtöl verða í fullum trúnaði og ákvarðanir um aðgerðir ekki teknar nema í fullu samráði við þann sem til trúnaðarmanns leitar.

Kjartan Óskarsson,

skólameistari Menntaskóla í tónlist

YFIRLÝSING FRÁ MÍT2018-03-09T12:58:16+00:00

KÓR OG EINSÖNGUR

Kór og einsöngur í Fríkirkjunni í Reykjavík, laugardaginn 2. desember kl. 18.00.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

KÓR OG EINSÖNGUR2018-03-09T13:12:36+00:00

LOKATÓNLEIKAR SAMSPILSNÁMSKEIÐS HILMARS JENSSONAR

Nokkrir lengra komnir nemendur rytmískrar deildar MÍT hafa verið á samspilsnámskeiði undir leiðsögn Hilmars Jenssonar gítarleikara og tónskálds undanfarna daga. Á námskeiðinu hafa þeir tekist á við krefjandi tónlist eftir Hilmar frá ýmsum tímum. Námskeiðinu lýkur með uppskerutónleikum í sal skólans, Rauðagerði 27, sunnudaginn 26. nóvember kl 15.  Tónleikarnir verða um klukkustundar langir. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

LOKATÓNLEIKAR SAMSPILSNÁMSKEIÐS HILMARS JENSSONAR2018-03-09T13:12:02+00:00

STÓRSVEIT MÍT Í HÖRPU


Stórsveit MÍT heldur tónleika í Hörpuhorninu í Hörpu, laugardaginn 2. desember kl. 16.00. Flutt verður tónlist eftir tónskáldið og útsetjarann Sammy Nestico en hann er þekktastur fyrir skrif sín fyrir stórsveit Count Basie. Stjórnandi er Snorri Sigurðarson.  Dagskráin er tæplega klukkustundarlöng.  Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

STÓRSVEIT MÍT Í HÖRPU2018-03-09T13:14:31+00:00

Næstu viðburðir:

Engir viðburðir til að birta

Go to Top