MÍT heiðrar Beethoven
Á skírnardegi Beethoven fimmtudaginn 17. desember klukkan 20:00 býður Menntaskóli í tónlist til tónleika sem streymt verður á þessari slóð: https://youtu.be/SLJOeIOf_sA
Nú í ár eru 250 ár frá fæðingu Beethoven og hafa nemendur og kennarar Menntaskóla í tónlist lagt sérstaka rækt við tónlist hans á þessu ári. Tónleikarnir eru afrakstur af því góða starfi en samspil og samvinna nemenda eru stór þáttur í skólastarfinu. Efnisskráin er fjölbreytt og áhugaverð, en á tónleikunum verða meðal annars leikin píanótríó, sönglög, blásaraoktett, fiðlusónata og píanósónötur eftir Ludwig van Beethoven. Í klassískri deild skólans er öflugt kammermúsíkstarf og nemendur skólans taka þátt í fjölbreyttum samspilshópum yfir námstímann, þar sem nemendur fá góða þjálfun í að vinna með öðrum og koma fram á tónleikum.
Skólinn stendur alla jafna fyrir 60-70 opinberum tónleikum á hverju skólaári víðsvegar um borgina en nú í ár hefur skólinn farið þá leið að streyma tónleikum.