Þórður hóf ungur nám í gítar- og píanóleik. Árið 1996 lauk hann prófi í tónsmíðum og tónfræði við Tónfræðadeild Tónlistaskólans í Reykjavík undir leiðsögn Guðmundar Hafsteinssonar. Í kjölfarið hlaut hann námsstyrk sem kenndur er við Jean Pierre Jacquillat  til að nema við Conservatoire National Supérieur de Musique de Paris árið 1997 þar sem aðalkennari hans var portúgalska tónskáld Emmanuel Nunes. Þórður hefur ennfremur tekið þátt í Young Nordic Music Festival í Helsinki árið 1995 og í Kaupmannahöfn árið 1996 auk þess sem hann hefur meðal annars sótt námskeið og fyrirlestra hjá Philippe Manoury og Magnus Lindberg auk annarra.

Eftir heimkomuna til Íslands hefur Þórður öðlast viðurkenningu sem mikilsvirt tónskáld og útsetjari. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna, tilnefninga og styrkja, þar sem hæst ber tilnefninguna árið 2004 fyrir tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs, en það sama ár hlaut hann Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir besta sígilda tónverk ársins fyrir fyrstu sinfóníu sína. Árið 2003 var Þórður tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir besta sígilda tónverk ársins, Píanótrio. Árið 2011 var hann aftur tilnefndur til sömu verðlauna fyrir „Kvartett fyrir klarinett, fiðlu, cello og píanó“ og aftur árið 2013 fyrir „Saxófónkvartett“. Þórður var einn þeirra sem komust í lokaúrslit fyrir International Music Prize for Excellence in Composition 2011 í flokki afburða tónskálda, og hann hefur hlotið íslensk listamannalaun úr tónskáldasjóði árin 2004, 2006, 2008, 2010 og 2011.

Þórður Magnússon hefur um árabil samið fjölda tónverka að beiðni virtra tónlistarhópa svo sem Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Trio Nordica, Ethos strengjakvartettsins, Íslenska saxófónskvartettsins og Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna. Tónsmíðar Þórðar hafa ennfremur verið fluttar víða um heim, allt frá Norðurlöndunum til New York, Frakklands og Tokyo, en flytjendur hafa meðal annars verið  CAPUT, the Quatuor Bozzini og píanóleikarinn Izumi Tateno.

Frá árinu 2002 hefur Þórður kennt tónsmíðar, hljómfræði, tónheyrn, tónlistarsögu og kontrapunkt við Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Garðabæjar.

Netfang: thordurmagnusson@icloud.com
Símanúmer: 565 2372 / 862 7068

Til baka í kennarayfirlit