Hallfríður lauk bæði einleikaraprófi og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1988 og var kennari hennar þar Bernharður Wilkinson. Hún fór þá utan til náms og var fyrst við nám hjá Trevor Wye og Kate Hill í Royal Northern College of Music í Manchester, og lauk þaðan Postgraduate Diploma eftir einn vetur. Hún komst þá að hjá William Bennett við Royal Academy of Music í Lundúnum, ein þriggja nemenda úr um hundrað manna hópi, og hlaut eftir tveggja ára nám Diploma of Advanced Studies, auk þess að hljóta styrk frá skólanum og verðlaun í keppni tréblástursnemenda. Hallfríður lagði að lokum stund á franska tónlist hjá Alain Marion í París veturinn 1991-92 en kom þá alkomin heim og hefur síðan verið starfandi flautuleikari og kennari í Reykjavík.

Hallfríður er 1. flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún hefur verið fastráðin við hljómsveitina frá janúar 1997, fyrst sem pikkolóleikari og uppfærslumaður en sem leiðandi flautuleikari frá 1999. Hallfríður er einnig flautuleikari kammerhópsins Camerarctica og Blásarakvintetts Reykjavíkur.

Hallfríður hefur ásamt starfi sínu hjá Sinfóníuhljómsveitinni leikið einleikskonserta, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og lagt stund á kammertónlist, auk þess að sinna uppfræðslu verðandi flautuleikara. Hallfríður hefur hljóðritað og gefið út á geisladiskum flautukvartetta eftir W.A. Mozart og ýmis íslensk kammerverk.

Hallfríður hefur einnig lagt stund á stjórnun og hefur æft tréblásaradeildir hinna ýmsu nemendahljómsveita, m.a. Ungsveit SÍ og Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík. Hún hefur stjórnað tónleikum kammerhópa atvinnumanna á borð við Hnúkaþey og Íslenska flautukórinn, tónleikum Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna, Kítónhljómsveitarinnar og tvennum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Hallfríður er höfundur og tónlistarstjóri metsölubókanna og tónleika um músíkölsku músina Maxímús Músíkús. Bókunum fylgja geisladiskar og hafa bækurnar komið út á mörgum tungumálum og vel yfir hundrað tónleikar byggðir á sögunum verið haldnir víða um heim. Bækurnar eru fjórar: „Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina“ (2008), „Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann“ (2010), „Maxímús Músíkús bjargar ballettinum“ (2012) og „Maxímús Músíkús kætist í kór“ (2014). Fimmta sagan, „Maximus Musicus Explores Iceland“ var pöntuð af Los Angeles Philharmonic Orchestra fyrir tónlistarhátíðina „Reykjavík“ 2017 og er kynning á Íslandi, íslenskri tónlist og náttúru landsins.

Árið 2002 var Hallfríði veitt heiðursnafnbótin Honorary Associate of the Royal Academy of Music (HonARAM) sem veitist þeim fyrrum nemendum RAM sem notið hafa velgengni í starfi. Einnig hefur Royal Academy leitað eftir Hallfríði sem gestakennara við flautudeildina. Árið 2003 hlaut Hallfríður titilinn Bæjarlistamaður Garðabæjar og henni var veittur Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu 17. júní 2014 fyrir frumkvæði að tónlistaruppeldi æskufólks með verkefninu um Maxímús Músíkús.

Hallfríður kennir á flautu við Tónlistarskólann í Reykjavík og stjórnar jafnfram flautukór skólans.

Netfang: hallola@simnet.is
Símanúmer: 565 9337 / 861 3337

Til baka í kennarayfirlit