Tónlistarmenntun sína hlaut Guðný fyrstu tvö árin við Tónlistarskólann í Hafnarfirði og síðan við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Björns Ólafssonar. Síðar við Eastman School of Music og Juilliard í New York þar sem aðalkennarar hennar voru Carroll Glenn og Dorothy DeLay.

Guðný hefur staðið á tónleikapalli frá sjö ára aldri. Hún hefur komið fram sem einleikari, í kammertónlist og sem gestakennari víða í Bandaríkjunum, Evrópu og einnig Asíulöndum. Á kennsluferðum sínum leitast hún við að kynna íslenska tónlist.

Guðný gegndi starfi 1. konsertmeistara við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1974 -2010. Hún leiddi hljómsveitina undir stjórn margra heimsþekktra hljómsveitarstjóra og lék með mörgum frægustu einleikurum og einsöngvurum heims.

Guðný er meðlimur í Tríói Reykjavíkur ásamt Richard Simm píanóleikara  og Gunnari Kvaran sellóleikara. Hún hefur leikið inn á nokkrar geislaplötur bæði einleik og kammertónlist.

Geisladiskur með einleiksverkum eftir Þórarin Jónsson, J.S. Bach, Hallgrím Helgason og Hafliða Hallgrímsson kom á markaðinn haustið 2002 og var tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna sama ár.

Guðný hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík í meira en fjóra áratugi og einnig hin síðari ár við Listaháskóla Íslands. Margir nemanda hennar hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna og eru í leiðandi stöðum bæði heima og erlendis.

Guðný  hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir tónlistarstörf, s.s. Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu árið 1989 og Menningarverðlaun DV árið 1990. Hún er handhafi gullmerkis F.Í.H., er heiðursfélagi í F.Í.T. og var útnefnd heiðursprófessor við Listaháskóla Íslands vorið 2018. Einnig hefur hún hlotið gullmerki Tónskáldafélags Íslands fyrir framlag sitt við flutning á íslenskri tónlist.

Netfang: ggkvaran@gmail.com
Símanúmer: 698 5416

Til baka í kennarayfirlit