Tónlistarnám Guðmundar hófst með tímum í píanóleik að hausti 1969. Tveimur árum síðar byrjaði hann nám í tónfræðigreinum við Tónlistarskólann í Reykjavík jafnframt því að halda áfram píanónáminu undir handleiðslu Halldórs Haraldssonar.

Haustið 1977 fór Guðmundur til Nýju Jórvíkur til tónsmíðanáms og sótti einkatíma hjá Charles Wuorinen. Hann innritaðist á Juilliard-skólann haustið 1979 sem tónsmíðanemandi Vincents Persichettis. Guðmundur hlaut Irving Berlin-styrkinn sem framhaldsnemi á Juilliard og lauk þaðan Doctor of Musical Arts-gráðu í tónsmíðum 1986. Hljómsveitarstjórn lærði hann hjá David Gilbert árin 1985-86. Að framhaldsnámi loknu kenndi Guðmundur tónfræðagreinar við Juilliard í tvo vetur.

Tónverk Guðmundar hafa verið flutt í Bandaríkjunum, Englandi, Svíþjóð, Danmörku og Hollandi auk Íslands, og hefur hann tekið þátt í flutningi þeirra sem stjórnandi, píanisti og cimbalómisti.

Guðmundur kom heim til Íslands árið 1987 og gerðist kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Síðan hefur hann kennt hljómfræði, kontrapunkt, heyrnarþjálfun, formfræði tuttugustu aldar tónlistar og tónsmíðar við skólann. Frá 1992-98 var hann jafnframt deildarstjóri tónfræðadeildar Tónlistarskólans.

Netfang: gha@ismennt.is
Símanúmer: 562 6636

Til baka í kennarayfirlit